Ég er mikið búinn að velta fyrir mér hvort utanlandsferðir eins og við þekkjum þær í dag séu liðinn tíð nú í öllu þessu krepputali og hvað það þá varir lengi, þá er ég að meina þessar týpísku sólarlandaferðir landanns sem flykkist út á vorin og allt fram á haust, til að fá einhverja tilbreytingu í hið hversdagslega og ófrumlega tilbreytingarleysi hins daglega amsturs venjulegrar vinnuviku okkar.
Ég er einn af þeim sem fer reglulega út á vorin í tvær til þrjár vikur eða svo til að viðra kroppinn og sérstaklega þá sálina, komast í annað umhverfi, því hvað er betra en að fara úr köldum vindum íslenska vorsins,(þó ég sé ekki að setja neitt út á íslenska sumarið, það er einstakt út af fyrir sig), i brennheitann vorhita balkannskagans. Að spranga um á stuttbuxum og hlýrabol með hvern matsölustaðinn hlið við hlið, og ásækna talsmenn staðanna sem vilja ólmir tæla þig inn á sinn stað (auðvitað færðu sértilboð ef þú sérð þér fært að kíkja inn, hvað annað :)), að ekki sé nú talað um alla ensku barina með sína týpísku ensku morgunverðamatseðla, sem reyndar eru eins frá morgni til miðnættis!, það verður reyndar fróðlegt að reyna á hversu vingjarnlega þeir munu taka á móti landanum nú eftir bankahrunið og IceSafe málið ógurlega.
En kannski er ég nú bara að mála skrattann á vegginn, þeir gætu alveg eins þakkað okkur fyrir að losa sig við þessa útrásarvíkinga sem voru á góðri leið með að kaupa upp Bretland ! Nú er umhverfið töluvert annað, krónan einskis virði og hver evra kostar það mikið að mánaðarlaun hins almenna borgara dugar skammt til að framfleyta sér og sínum í 2 vikur, hvað þá fleiri, og erfitt að ímynda sér að venjulegur verkamaður komist út í sólina næsta vor og sumar.
Hvað um það, ég ætla samt að reyna hvað ég get til að skreppa þangað suður eftir í vor enda ber ég þá von í brjósti að betri tíð sé á næsta leiti, er reyndar ansi vongóður um að svo verði, það er töluvert seigt í okkur (Ó)útrásarvíkingum á Íslandinu hinu góða :)
Höfundur starfar í framleiðslufyrirtæki í Reykjavík og nýtur þess að ferðast, er mikið fyrir góða bók og góðann mat, íslenskann gamaldags mat þá helst, enda ekki verra að styrkja íslenskan landbúnað og sjávarútveg.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.