29.1.2011 | 20:31
Ljóðalist, frá Íslandi til ljóðlistar úr austri
Ég hef lengi verið aðdáandi góðrar ljóðlistar og hef sjálfur tekist við þá góðu list, með misjöfnum árangri eins og svo mörgum öðrum reyndar, en það eru ekki bara á vesturlöndum sem menn hafa reynt fyrir sér í þessum orðaleik sem ljóð eru.
Ljóðlist er listgrein þar sem fagurfræði tungumálsins er í forgrunni, og meiri áhersla er lögð á uppsetningu og hrynjandi heldur en efnislegt innihald textans.
"Þótt skilgreiningin á ljóðum og ljóðlist hafi verið útvíkkuð í seinni tíð eru þó enn til afbrigði ljóðlistar sem lúta mjög ströngum bragfræðilegum reglum. Dæmi um það eru íslenska ferskeytlan og japanska ljóðaformið Haiku." (tekið frá Wikipedia)
Dæmi um rétt kveðna ferskeytlu:
Ferskeytlan er Frónbúans
fyrsta barnaglingur,
en verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.
(Andrés Björnsson)
Svo er það Japanska formið Haiku (Hæka)
Haiku er japanskur bragaháttur sem þróaðist út frá rengu sem er bragur þar sem tveir eða fleiri kveðast á. Hæka hefur þrjár braglínur með fimm atkvæðatáknum í fyrstu línu, sjö í næstu og fimm í þeirri þriðju. Efni rétt ortrar hæku á að tengjast náttúrunni og innihalda eitt orð (kigo) sem tengist þeirri árstíð sem er þegar hækan er ort. Hækur eru ortar í nútíð og innihalda ekki rím. Efni hækunnar eru yfirleitt tvær (sjaldnar þrjár) einfaldar skynmyndir eða upplifanir á náttúrunni.
Dæmi:
Í nótt kom vorið
hvergi sér ský á himni
þrestir ræðast við
Vorilmur trjánna
fær grjótið til að gægjast
undan snjófeldi
Þegar ég kem út
hvað sé ég! þarna hangir
vor á pílviðnum
Eins og við sjáum er þetta töluvert öðruvísi en okkar gamla og góða ferskeytla, en það er gríðarlega gaman að lesa japönsk og kínversk ljóð sem eiga aldagamlar hefðir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.